Frjáls: Öll gerum við kröfu um þau mannréttindi að lifa sjálfstæðu lífi

Á alþjóðadegi mannréttinda, laugardaginn 10. desember næstkomandi kl. 14.00, ætlar NPA-miðstöðin að fagna útkomu nýrrar og metnaðarfullrar ljósmyndabókar með því að opna veglega og myndarlega útiljósmyndasýningu í Austurstræti. NPA-félagar vilja með bókinni, sem ber yfirskriftina Frjáls, og útiljósmyndasýningunni beina sjónum almennings og stjórnvalda að þeim sjálfsögðu mannréttindum að öllum þegnum þjóðfélagsins séu skapaðar aðstæður til að lifa sjálfstæðu lífi.

stelpamynd


Félagar í NPA munu hefja sölu á nýju ljósmyndabókinni Frjáls í Austurstræti að aflokinni opnun ljósmyndasýningarinnar þar sem boðið verður bæði upp á eyrnakonfekt í formi tónlistar og heitt kakó í kroppinn. Við opnun sýningarinnar mun Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, flytja ávörp auk þess sem þingmönnum þjóðarinnar hefur sérstaklega verið boðið til hátíðarinnar til að þiggja jólgjafir frá félögum í NPA. Guðmundi Steingrímssyni, þingmanni og formanni verkefnastjórnar um NPA hjá velferðarráðuneytinu, verður svo afhent kröfuskjal fatlaðs fólks til sjálfstæðara lífs.Notendastýrð persónuleg aðstoð

NPA-miðstöðin, sem er samvinnufélag fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð og sjálfstætt líf, hefur ákveðið að tími sé kominn til að taka málin í eigin hendur. NPA-miðstöðin er í eigu og undir stjórn fatlaðs fólks og var stofnuð 16. júní 2010. Hún er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Starfsemin byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og skilyrðum til aðildar að Evrópusamtökum um sjálfstætt líf (ENIL). Tilgangur NPA-miðstöðvarinnar er að styðja fatlað fólk við að útvega og skipuleggja persónulega aðstoð. Stuðningurinn fer fram í formi jafningjaráðgjafar og einnig með því að halda utan um alla umsýslu. Jafnframt er veitt fræðsla um hugmyndafræðina fyrir persónulegt aðstoðarfólk, almenning og stjórnvöld. NPA-miðstöðin tekur einnig þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Sjá fréttatilkynningu sem NPA miðstöðin sendi frá sér vegna þessa hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu