Frumkvöðlar útskrifaðir á Ísafirði

Sex frumkvöðlar luku námskeiðinu Sóknarbraut á Ísafirði á dögunum. Frumkvöðlarnir hafa unnið að þróun viðskiptahugmynda sinna undanfarna mánuði og bættast nú í hóp rúmlega 160 aðila sem lokið hafa Sóknarbrautarnámskeiðinu vítt og breitt um landið á síðustu misserum.

Á námskeiðinu er farið yfir fjölbreytt viðfangsefni sem varða stofnun og rekstur fyrirtækja með það að markmiði að brúa bilið á milli hugmyndar að fyrirtæki og markvissrar framkvæmdar. Forsenda fyrir þátttöku í Sóknarbraut er sú að viðkomandi hafi viðskiptahugmynd sem síðan er greind með markvissum hætti og þróuð. Þátttakendum í Sóknarbraut stendur til boða margvíslegur stuðningur á meðan námskeiðinu stendur sem og að því loknu frá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

 

Alls sátu 12 þátttakendur námskeiðið að þessu sinni. Sex þátttakendur útskrifuðust með formlegum hætti með kynningu á verkefni sínu og bættust þar með í hóp rúmlega 160 aðila sem lokið hafa Sóknarbrautarnámskeiðum vítt og breitt um landið síðan 2005. Viðskiptahugmyndir þátttakendanna sem luku námskeiðinu voru af fjölbreyttum toga og hafa nokkrir þátttakendanna þegar stofnað eigið fyrirtæki en aðrir voru að skoða og vinna að nýjum tækifærum til atvinnusköpunar í sinni heimabyggð. Næsta Sóknarbrautarnámskeið verður haldið á Akureyri í lok janúar 2012.

Nánari upplýsingar gefur Elín Aradóttir í síma: 522-9432 / netfang: elina@nmi.is

Nánari upplýsingar um námskeiðið Sóknarbraut er að finna hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu