Ný íslensk steypa sú umhverfisvænsta í heimi

Rannsóknir og þróun á íslenskri steinsteypu vekja verðskuldaða athygli erlendis

Nýjar íslenskar rannsóknir á steinsteypu hafa leitt af sér nýjungar í efnisnotkun og framleiðslu þar sem kolefnisspor nýrrar steypugerðar hefur minnkað mikið samanborið við kolefnisspor hefðbundinnar steypu, en Ólafur H. Wallevik prófessor fer fyrir hópi sérfræðinga hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í þessari rannsóknavinnu. Til samanburðar þá telst kolefnisspor hefðbundinnar steypu í Evrópu vera 0,14 kgCO2/kg en nýja steypan, sem kallast Eco-Crete, hefur kolefnissporið 0,05 kgCO2/kg. Steypan mun jafnframt uppfylla ítrustu kröfur um styrk og varanleika.

 steypukallar1steypukallar2

Síðastliðinn þriðjudag kynnti Ólafur þróun og blöndun umhverfisvænnar steypu í Abu Dhabi. Meðal viðstaddra voru Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dr. Sultan Ahmed Al Jaber frá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum en hann er forstjóri Abu Dhabi Future Energy Company. Það fyrirtæki sér um uppbygginu á borginni Masdar í Abu Dhabi sem er ætlað að verða fyrsta mengunarlausa borg veraldar þar sem útblástur koltvísýrings er enginn og allur úrgangur endurunninn. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og ReadyMix Abu Dhabi standa sameiginlega að þróun steypunnar en hugmyndin kemur úr smiðju Íslendinga sem jafnframt hafa verkefnisstjórn á hendi. Samkomulag um þróunarverkefnið var undirritað fyrir ári síðan á Heimsþingi hreinnar orku, World Future Energy Summit, í Abu Dhabi að viðstöddum forseta Íslands.

Heimsþing hreinnar orku
Heimsþing hreinnar orku eða World Furture Energy Summit er leiðandi vettvangur sem vísar veginn í átt að byltingu í orkubúskap heimsins þar sem sólarorka, vindorka, jarðhiti, vatnsorka og aðrir hreinir orkugjafar verða ráðandi. Þingið sækir fjöldi forseta, forsætisráðherra, umhverfisráðherra og orkuráðherra víða að úr veröldinni auk vísindamanna, tæknimanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi. Heimsþingið verður haldið í Abu Dhabi dagana 16. - 19. janúar 2012. Á þessu heimsþingi verður steypan kynnt opinberlega að viðstöddum tugþúsundum ráðstefnugesta.

Þekkingarstigið er hátt á Íslandi
Rannsóknir á sementsbundnum efnum er snar þáttur í starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur Dr. Ólafur H. Wallevik stýrt rannsóknum í flotfræði sementsbundinna efna ásamt teymi sínu í samvinnu við hvorutveggja innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki. Þekkingarstigið á sviði steinsteypu er mjög hátt á Íslandi og hafa íslenskir sérfræðingar átt stóran þátt í þeirri aðferðafræðilegu þróun sem hefur átt sér stað á efniseiginleikum steinsteypu, endingu og gæðum auk nýskapandi tilrauna með mismunandi íblöndunarefni gagngert til að svara breyttum kröfum og þörfum á markaði. Íslensk fagþekking er því að skila Íslandi í hóp fremstu landa á sviði steinsteypu og það á heimsvísu.

Nánari upplýsingar um steinsteypudeildina er að finna hér 

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu