Tuttugu konur útskrifast af Brautargengi

Tuttugu konur útskrifuðust af Brautargengi í Reykjavík síðastliðinn föstudag í húsakynnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að Keldnaholti. Þar með hafa alls 933 konur útskrifast af Brautargengi frá því að fyrsti hópurinn útskrifaðist árið 1998. Samkvæmt nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eru vel yfir helmingur útskrifaðra Brautargengiskvenna nú í sjálfstæðum rekstri með eigin fyrirtæki. 

 

Brautargengi hóf göngu sína árið1996 í Reykjavík en 2003 var það haldið í fyrsta skipti á landsbyggðinni. Hvert námskeið stendur yfir í samtals fimmtán vikur og eru haldin bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni á haustönn og vorönn. Konurnar koma inn á Brautargengi með eigin viðskiptahugmynd og skrifa heildstæða viðskiptaáætlun í kringum hugmyndina sína.

Við útskrift að þessu sinni voru veittar  þrjár viðurkenningar. Hvatningarverðlaun hlaut Sigríður Kristjánsdóttir fyrir nýstofnað fyrirtæki sitt Meginmál ehf, Hildur Kristjánsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestu fjárfestakynninguna, en hugmynd hennar gengur út á þjónustu við ráðstefnuferðamennslu. Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir fékk svo viðurkenningu fyrir bestu viðskiptaáætlunina um verslunina Kontorinn.

Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar, ávarpaði samkomuna og minnti á mikilvægi þess að vinna að því sem maður hefur eldmóð fyrir, en einnig að það sé ekki annarra að hafa trú á manni, heldur sé það algerlega á eigin ábyrgð hvers og eins.

Næsta Brautargengis námskeið hefst í Reykjavík í febrúar. Hægt er að nálgast upplýsingar um Brautargengi og umóknareyðiblað hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu