Mikilvæg verðmætasköpun á sviði jarðvarmanýtingar

Undanfarin þrjú ár hafa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands, Háskólann í Reykjavík, ÍSOR, Jarðboranir, Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka og Landsvirkjun unnið saman að verkefninu "Háhitaborholutækni - Öndvegissetur á Íslandi" þar sem rannsakaðir voru ýmsir þættir sem hafa áhrif á rekstur og viðhald jarðvarmavirkjana og styrkt var af Tækniþróunarsjóði.

Í verkefninu voru rannsakaðar ýmsir þættir sem hafa áhrif á rekstur og viðhald jarðvarmavirkjana eins og tæring og varmaálag í fóðringum háhitaborhola, þróun nýrrar borholusteypu og rannsókn á tæringu í suðum í lögnum jarðvarmavirkjana. Þessir þættir voru rannsakaðir meðal annars í þeim tilgangi að skilja betur uppbyggingu háhitaborhola, rekstur þeirra og viðhald með það fyrir augum að auka endingu þeirra og þar með stuðla að bættri arðsemi af rekstri jarðhitavera. Markmið verkefnisins var jafnframt að mynda klasasamstarf innlendra sem og erlendra sérfræðinga á sviði borholutækni, og styrkja og auka menntun verk- og tæknimanna á þessu sviði.

Samstarf lykilaðila leiðir af sér nýja þekkingu
Í þessu verkefni sameinuðust allir helstu lykilaðilar hérlendis og þekking varð til, sem getur nýst öllum aðilum verkefnisins og ekki síður íslensku þekkingarsamfélagi. Aukin þekking og upplýsingar eru nú til hvað varðar tæringarþol mismunandi efna í súru og mjög heitu umhverfi fyrir háhitaborholur, áhrif tæringar á suðu lagna og búnaðar í jarðhitaumhverfi og áhrif íblöndunarefna á borholusteypu þ.e. á flotfræðilega eiginleika og styrk. Hannað var þrívítt líkan af háhitaborholu sem nýtist til að meta hegðun fóðringa við mismunandi álag sem holan verður fyrir á líftíma sínum auk þess sem yfirlit yfir helstu áhrifaþætti skemmda á háhitaborholum og helstu aðferðir til hreinsunar á útfellingum í borholum og um eftirlit og viðgerðir á jarðhitabúnaði er nú aðgengilegt. Ítarleg skýrsla um niðurstöður verkefnisins liggur fyrir hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hjá Dr. Sigrúnu N. Karlsdóttur og Ingólfi Ö. Þorbjörnssyni.

Framtíðarsýn á sviði jarðnýtinga
Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinnur ýmis verkefni á sviði jarðhitanýtinga auk þess að þjónusta fyrirtæki á sviðinu. Sérfræðingar Nýsköpunarmiðstöðvar hafa meðal annars unnið tjónagreiningarverkefni þar sem greind eru tjón vegna tæringar í lögnum og búnaði. Einnig hafa verið settar upp ýmsar efnisprófanir fyrir jarðhitaiðnaðinn, til að mynda tæringarprófanir fyrir orkufyrirtæki hérlendis. Framtíðarsýn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er að hérlendis verði öndvegissetur í háhitaborholutækni og að á hverjum tímapunkti verði metnaðarfull rannsókna- og þróunarverkefni í gangi í nánu samstarfi háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Hagkvæmni orkuöflunar á jarðhitasvæðum landsins til framtíðar litið er að miklu leyti háð auknum rannsóknum og þekkingu í borholutækni og því er verkefni sem þetta mikilvægt í verðmætasköpun á sviði jarðvarma nýtingar.

Nánari upplýsingar um þjónustu Efnis-, líf- og orkutækni á Nýsköpunarmiðstöð Íslands er að finna hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu