Brautargengiskonur nálgast þúsund

Aðventan er ekki bara tími jólaljósa og jólaskemmtana heldur einnig tími útskrifta hjá mörgum. Í dag útskrifuðust 27 konur af námskeiðinu Brautargengi í Reykjavík og 9 konur á Akureyri. Fjöldi útskrifaðra Brautargengiskvenna nálgast nú þúsundið óðfluga og má gera ráð fyrir að þeirri tölu verði náð með útskriftum á námskeið á vorönn 2013. Eftir útskriftina í dag eru Brautargengiskonur orðnar 988 frá því fyrsti hópurinn útskrifaðist í Reykjavík 1998. 

Brautargengi 2012 - ústkriftarhópur

Útskriftarhópurinn í heild sinni ásamt Steingrími J. Sigfússyni ráðherra og Bjarnheiði Jóhannsdóttur, verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ferðamenn helsti markhópur Brautargengiskvenna

Hugmyndir á haustönn Brautargengis hafa einkennst af mikilli fjölbreytni þar sem sérstök áhersla hefur verið lögð á íslenska menningu, menntun og fræðslu á mjög víðu sviði.  Hugmyndirnar eru margar og mislangt á veg komnar en hér er um að ræða hugmyndir tengdar sælkeramatarferðamennsku, ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur, sundfatnað fyrir konur með línur, vefsíðu um öryggismál fyrir konur, pole fitness stofu, vísindagarð fyrir börn, kaffihús, kaffibrennslu, hönnun og þannig mætti lengi telja.  Stærsti einstaki markhópurinn að þessu sinni eru ferðamenn, hvort sem til sölu eru vörur eða þjónusta. Um þriðjungur þátttakenda að þessu sinni stefna á erlendan markað að hluta til eða öllu leyti og mörgum tilfellum er heimamarkaðurinn Ísland nýttur sem mikilvægur tilraunamarkaður áður en haldið er af stað í sölu og markaðssetningu erlendis.  Fallegir gripir, fatnaður, ný þjónustuveiting og skemmtun verður í boði innan tíðar frá þessum hópi.

Aukinn sóknarhugur í íslenskum konum

Eins og oft áður komust færri konur að en vildu á námskeiðið, en tæplega 40 konur sóttu um að þessu sinni.  Það er sérlega ánægjulegt að eftirspurnin sé mikil í ljósi þess að háskólarnir hafa í auknu mæli verið að bjóða upp á sérsniðin námskeið fyrir konur með viðskiptahugmyndir sem einnig eru vel setin. Þetta ýtir undir þá ríkjandi tilfinningu að aukinn sóknarhugur sé í íslenskum konum og þær að leita leiða við að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd með eigin atvinnurekstri. 

Brautargengi hefur áhrif

Rannsóknir sýna að hátt í 55% kvenna sem lokið hafa Brautargengi eru í rekstri að námskeiði loknu.  Önnur 20% þeirra vinna áfram að hugmyndum sínum. Það eru því einungis 25% sem láta staðar numið eða þróa hugmynd sína út í eitthvað annað. Yfir heildina litið öðlast þátttakendur á námskeið lykilfærni sem stjórnendur fyrirtækja, hafa myndað sterk tengslanet og upplifað það að sjá drauma sína rætast.  Þessar niðurstöður koma fram í rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands árið 2010.  Önnur áhrif hafa ekki verið mæld sem líklegt eru að séu til staðar. Til að mynda fara margar konur í frekara framhaldsnám eftir að hafa tekið þátt í Brautargengi, tekist á hendur meiri ábyrgð í störfum sínum eða breytt um lífsstíl sem bendir allt til aukins sjálfstraust í starfi og lífinu almennt. Meðal þekktra Brautargengiskvenna má nefna Heru Björk Þórhallsdóttur söngkonu, Sigríði Klingenberg norn og spámiðil og Eddu Heiðrúnu Backman leikkonu og listmálara.  Nokkur vel þekkt fyrirtæki brautargengiskvenna má nefna líka; Gestamóttökuna, Járnsmiðju Óðins og Verkefnalausnir til að mynda.    

Veittar viðurkenningar

Brautargengi 2012 - veittar viðurkenningar

Við útskrift er veitt viðurkenning fyrir bestu viðskiptaáætlunina auk þess sem tvær hugmyndir fá hvatningarverðlaun. Svandís Anna Sigurðardóttir hlýtur viðurkenningu fyrir hugmynd sína um Hinsegin kaffihúsið Mjólk, þar sem í boði verða hinsegin veitingar og hinsegin stemning.  Svandís hyggst stofna kaffihúsið í miðbæ Reykjavíkur ásamt maka sínum, Sólveigu Helgu Gunnlaugsdóttur.  Hér er um hefðbundinn rekstur að ræða í grunninn, en þær stöllur hafa unnið ítarlega rannsóknarvinnu við gerð áætlunar,  kortlagt bæði íslenskan markað og markað hinsegin ferðamanna, unnið djúpa rekstrargreiningu og vandaða stefnumótun. 

Katrín Sylvía Símonardóttir fær viðurkenningu fyrir bestu fjárfestakynninguna fyrir fyrirtækið sitt Kasy. Kasy sérhæfir sig í sundfatnaði fyrir konur með línur og stefnir á Bandaríkjamarkað.  Katrín lagði mikið í kynninguna sem var í senn ítarleg og lifandi.  Katrín er með stór áform sem hún kynnti sem raunhæfan fjarfestingarkost.

Þær Solveig S. Halldórsdóttir og Elsa Þórey Eysteinsdóttir fá viðurkenningu fyrir að hafa kynnt til sögunnar áhugaverðustu nýjungina. Þær hafa unnið að því að móta stefnu og viðskiptahugmynd fyrir vísindasetur fyrir börn undir nafninu: Krakkasetrið – þar sem vísindi eru barnaleikur.  Viðskiptahugmyndin er vel útfærð og svarar augljósri þörf á markaði fyrir afþreyingu sem getur vakið áhuga barna á vísindum og eflt tæknilæsi barna.  Hugmyndin getur þannig haft heilmikil áhrif til framtíðar, þar sem áhugi barna á vísindum getur leitt til aukinnar tækni- og vísindamenntunar en mikill skortur er á tæknimenntuðu fólki á Íslandi.

Nánari upplýsingar um ofangreint veitir Hildur Sif Arnardóttir, netfang: hildur@nmi.is

Nánari upplýsingar um Brautargengi er að finna hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu