Mikil gróska í tæknigreinum á Íslandi

Fyrir nokkrum vikum síðan setti Nýsköpunarmiðstöð Íslands í loftið nýjan vef sem ætlað er að vera helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki. Viðbrögð við þessari nýjung á markaðnum hafa verið mjög góð og lofa viðtökur og aukning í skráningu nýrra fyrirtækja góðu um framtíðina. Listinn sýnir að það er mikil gróska í tæknigreinum á Íslandi þar sem sprotafyrirtæki eru að vinna að nýjum og spennandi hlutum.

Sprotar.is

Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur ein að verkefninu en hugmyndin er að fá sem flesta aðila í stuðningsumhverfi sprota á Íslandi til að koma að því á einn eða annan hátt. Á síðunni er einnig tenging við Enterprise Europe Network (www.een.is) sem er stærsta tengslanet í heimi og aðstoðar lítil og meðalstór fyrirtæki að komast í erlend samstarf. Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðir það verkefni á Íslandi í samstarfi við RANNÍS og Íslandsstofu. Hugmyndin með þessari tengingu er að vekja athygli íslenskra sprota á þessari leið á erlenda markaði en þjónustan er hluti af stuðningsumhverfi ríkisins við sprota og er gjaldfrjáls.

Við viljum auka sýnileika íslenskra sprotafyrirtækja

Meginmarkmið vefsins er að gera sprotafyrirtæki sýnilegri í samfélaginu. Almenningur, fjölmiðlar, stjórnmálamenn, fjárfestar og sprotarnir sjálfir geta á einum stað fengið ágæta yfirsýn yfir það hvað er að gerjast í þessum heimi. Þannig getur vefur sem þessi styrkt ímynd sprota og hjálpað til við að undirstrika mikilvægi þeirra fyrir íslenskt atvinnulíf og atvinnusköpun. Vefurinn er í sífelldri mótun en ákveðið var að fara hægt af stað og byggja vefinn upp á traustum grunni. Nú til að byrja með birtir vefurinn einungis lista yfir tæknifyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun að einhverju marki en með tímanum verður sú skilgreining mögulega víkkuð frekar. Öll fyrirtæki á listanum eru minni en hundrað manna vinnustaðir og er meirihlutinn með minna en þrjátíu manns í vinnu.

Viðtökur lofa góðu

Þjónustunni hefur verið afar vel tekið á þeim stutta tíma sem vefurinn hefur verið opinn. Margir forsvarsmenn sprotafyrirtækja og frumkvöðlar hafa lýst yfir ánægju sinni með vefinn og þar með framtakið. Fjölmörg ný fyrirtæki hafa sótt um aðgöngu ásamt því að koma með ábendingar um aðra áhugaverða sprota. Strax í fyrstu viku opnunarinnar voru á þriðja tug nýrra umsókna um að komast á vefinn.  Listinn á vefnum sýnir svo ekki verður um villst að það er mikil gróska í tæknigreinum á Íslandi þar sem sprotafyrirtæki eru að vinna að nýjum og spennandi hlutum. Listinn er opinn öllum án endurgjalds þeim sprotafyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði.

Líttu í heimsókn á www.sprotar.is eða hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu