Fjölbreyttar krásir úr héraði

Upp á síðkastið hefur borið meira á því að veitingastaðir víðs vegar um landið bjóði upp á rétti "úr héraði". Ferðamálastofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands settu verkefnið "Krásir" af stað árið 2009 með það að markmiði að efla þróun og sölu matvæla í heimahögum, meðal annars til ferðamanna.

Krásir

Aukin fjölbreytni

Ferðamenn hafa í auknu mæli sýnt svæðisbundinni matarmenningu og venjum áhuga og athygli og því var ákveðið að ráðast í Krásaverkefnið. Einstaklingar, fyrirtæki eða hópar geta sótt um að fá styrki í nafni Krása en þurfa að sýna fram á að afurðin sem á að framleiða sé ákveðin nýjung, hafi sterka skírskotun til síns heimasvæðis og að framleiðsluaðilar séu í miklum tengslum við ferðaþjónustu. Fjöldi umsókna í verkefnið sýnir að áhugi er svo sannarlega til staðar og hafa færri komist að en vilja.

Minjagripir úr mat

Þeir aðilar sem taka þátt í verkefninu fá leiðsögn frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og eru styrkir greiddir út í samræmi við árangur þróunarvinnu. Hvert verkefni fær aðgang að ráðgjafa sem aðstoðar við ýmsar ákvarðanir t.d. þær sem snerta útlit vöru, stærðir á einingum, bragð og markaðssetningu. Reglulega skila þátttakendur inn áfangaskýrslum til Nýsköpunarmiðstöðvar og svo lokaskýrslu þegar verkefninu lýkur en hverju verkefni þarf að ljúka innan 18 mánaða. Margt af því sem ferðamenn í dag sjá á ferð sinni um landið, merkt sem matur úr héraði, á rætur sínar að rekja til þessa verkefnis. Fyrir austan hafa einstaklingar til að mynda boðið upp á minjagripi úr mat; sultur, síróp, birkisafa og annað sem fólk getur tekið með sér.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu