Hópferðabíll fyrir íslenskar aðstæður

Við kynnum til sögunnar Ara, frumkvöðul nr. 21 í jóladagatalinu 2013.

Fyrirtækið Jakar hefur á síðustu árum unnið að þróun á ferðabíl sem sérsniðinn er fyrir íslenskar aðstæður. Fjöldi bíla er í boði í íslenskri ferðaþjónustu í dag en fáir bílar henta til keyrslu og ferðalaga um afskekktari hluta landsins. Hluta sem hafa að geyma ósnortnar náttúruperlur og faldar eru hinum hefðbundna ferðalangi. Hópur Íslendinga hefur aðlagað einkabíla sína að keyrslu um slíkar slóðir en ekki er hægt að fara í ferðir með stærri hópa í einum og sama bílnum.

Jakar - hálendið

Kjörinn bílakostur fyrir björgunarsveitir og ferðaþjónustuna

Ísar er nafn á bíl sem hannaður er frá grunni og smíðaður sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Hönnuður bílsins er Ari Arnórsson, bílasérfræðingur og leiðsögumaður til margra ára. Bíllinn er hannaður og smíðaður á grind Ford E450, 6,5 tonna vörubíl. Áður en farið var út í smíði, hannaði og teiknaði Ari alla verkþætti og ýmsir sérfræðingar voru fengnir til að taka að sér einstaka verkþætti s.s. fjöðrunarbúnað, málmsmíði, bílasmíði og málningu. Bíllinn tekur 21 farþega auk bílstjóra og sætis fyrir leiðsögumann. Bíllinn er hugsaður sem kjörinn bílakostur fyrir björgunarsveitir landsins sem og þjónustubíll fyrir ferðalanga sem vilja fara út fyrir hinn hefðbundna hring ferðaþjónustunnar og sækja staði heim sem annars væri erfitt að heimsækja.

Nánari upplýsingar veitir Ari Arnórsson, netfang:isjakar@gmail.com

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu