Drifkrafturinn felst í bættu lífi Misfætlinga

„Það má segja að viðskiptahugmyndin hafi kviknað fyrir rúmu ári síðan þar sem ég sat heima eitt þriðjudagskvöld og var að búa til fésbókarhóp, sem átti fyrst og fremst að hjálpa mér að finna spegilmynd mína í fótum,“ segir Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, sem sjálf er með misstórar fætur. Hún notar skóstærð 40 á vinstri fót og skóstærð 38 á hægri fót. Eins og gefur að skilja, er líf misfætlingsins ekki alltaf dans á rósum þegar kemur að skókaupum og oftar en ekki hefur Ólöf Hugrún þurft að festa kaup á tvennum skópörum svo hún eigi passandi skó á báðar fætur.

Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir

Nokkur „pör“ hafa orðið til á fésbók

Fésbókarhópur Ólafar, Félag Misfætlinga, hefur undið skemmtilega upp á sig og innan hans eru nú um sjötíu Misfætlingar á öllum aldri og af báðum kynjum. Með hjálp fésbókarhópsins og fjölmiðla tókst Ólöfu að finna tvær spegilmyndir, ungar konur sem hún getur nú farið með í skóleiðangra og nokkrir aðrir hafa fundið sínar eigin spegilmyndir innan fésbókarhópsins. Það hafa því orðið til nokkur „pör“ innan hópsins og alltaf eru fagnaðarfundir þegar fólk finnur spegilmynd sína þó það sé alls ekki sjálfgefið að fólk finni aðila, sérstaklega í okkar litla samfélagi.

„Í vor sótti ég um styrk hjá Atvinnumálum kvenna og fékk 400 þúsund króna styrk til gerðar viðskiptaáætlunar um verkefnið, en hugmyndin er að búa til samfélag á netinu fyrir Misfætlinga og einfætta. Hjá Atvinnumálum kvenna var mér svo bent á að sækja um námskeiðið Brautargengi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem er nám fyrir konur með viðskiptahugmyndir. Ég hóf námið í haust og sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa tekið þann slag. Á námskeiðinu fær maður mjög gagnlegar og þarfar upplýsingar og flotta kennslu, sem nýtist ekki bara í verkefninu sjálfu heldur ekki síður í lífinu almennt,“ segir Ólöf.

Viðurkenning fyrir samfélagslega nýsköpun

Við útskrift Brautargengis þann 13. desember 2013, hlaut Ólöf Hugrún viðurkenningu fyrir samfélagslega nýsköpun fyrir viðskiptahugmynd sína „Odd Sized Feet“, en hún hyggst aðstoða Misfætlinga og einfætta við að fá skó við hæfi á skaplegu verði.  Ljóst er að í viðskiptatækifærinu er þörf fyrir hendi sem ekki er verið að sinna, hvorki hérlendis né erlendis, og því gætu skapast tækifæri fyrir útrás viðskiptahugmyndarinnar, segir m.a. í umsögn verkefnisstjóra Brautargengis.  Mun fleiri eiga við það vandamál að etja að þurfa  misstóra skó, en ætla mætti í fyrstu og kostnaðarsamt getur reynst að þurfa að kaupa tvö pör af öllum skóm til að uppfylla grunnþörf um fótaskjól.  Verkefnið,  sem lagt er upp með, er mjög metnaðarfullt og frumkvöðullinn Ólöf Hugrún, sem hefur fulla ástríðu fyrir verkefninu, hefur alla burði til að ná langt með viðskiptahugmynd sína, segir ennfremur.

Í öðru sæti í Startup Weekend Reykjavík

Í haust eða dagana 18.-20. október 2013, tók Ólöf þátt í Startup Weekend Reykjavík í Háskólanum í Reykjavík með þátttöku um 80 einstaklinga. Þrettán teymi voru mynduð utan um jafn margar hugmyndir með það að markmiði að koma framkvæmd þeirra eins langt og mögulegt er yfir eina helgi. Startup Weekend Reykjavík er samstarfsverkefni Klak Innovit frumkvöðlaseturs og Landsbankans. Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin og lenti Ólöf í öðru sæti með hugmynd sína „Odd Sized Feet“.

„Verkefnið er í sjálfu sér risavaxið. Það  hefur þó tekið nokkrum breytingum í ferli áætlanagerðarinnar og er í reynd enn í mótun,“ segir Ólöf. „Í augnablikinu er verkefnið býsna yfirgripsmikið þar sem ég er að kljást við óræðar tölur þó vísbendingar séu um fjölda fólks, sem á við vandamálið að etja, samkvæmt upplýsingum frá mínum gamla skósmið Lárusi Gunnsteinssyni, sem starfar nú sem vöruhönnuður hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri hf.. Hugmyndin er að reyna að nálgast óræða stærð Misfætlinga og einfættra og safna saman áætluðum viðskiptamannahópi í samfélag, sem getur svo í framhaldinu herjað á skóframleiðendur í Bandaríkjunum, sem eru að sérsmíða skó frá grunni, svo sem Nike, Adidas og Converse. Markmið verkefnisins er að stofna samfélag á netinu, vefgátt sem yrði einskonar upplýsingaveita fyrir Misfætlinga og einfætta þar sem einnig yrði hægt að panta skó. En fyrst þurfum við að búa til samfélag hér heima og koma okkur í samband við viðeigandi samtök og rétta aðila erlendis,“ segir Ólöf.

Komst í himnaríki Misfætlingsins

Ólöf segir að sína misstóru fætur megi rekja til fæðingargalla auk þess sem það munaði þremur sentimetrum á lengdinni. Hún fór  í þrjár skurðaðgerðir á unglingsárum á vinstri legg til að stoppa vöxt hans á meðan sá hægri var að vaxa. Núna munar rúmlega einum sentimetra á leggjalengdinni sem kallar á innlegg báðum fótum til verndar stoðkerfinu.

Jólaskór Ólafar Hugrúnar

„Það hefur vissulega verið svolítið dýrt að vera svona sérstök í gegnum tíðina. Það hefur kallað á alls konar vesen auk þess sem það er tvöfalt dýrara fyrir mig að eignast skóbúnað á við aðra þar sem ég þarf alltaf að kaupa tvenn pör, í stærðum 38 og 40,“ segir Ólöf og hlær og bætir við að þó hún vilji svo sem ekki halla á karlpeninginn, séu skór yfirleitt mikið áhugamál kvenna. „Með réttu ætti ég alltaf að vera í sérsmíðuðum skóm. Ég á rétt á einum til tveimur sérsmíðuðum skóm frá Tryggingastofnun á ári hverju og nýti ég mér það gjarnan, en stundum viljum við konur breyta til og vera fínar og þó maður hafi fundið sína spegilmynd, þarf skósmekkurinn ekkert að fara saman auk þess sem maður vill geta verslað skó þegar skólöngunin kemur upp. Ég er þó búin að finna jólaskóna í ár. Ég var svo heppin að hafa fundið himnaríki Misfætlingsins í Bandaríkjunum um daginn þar sem ég gat keypt eitt skópar og annað á hálfvirði. Svoleiðis skóbúðir gera líf Misfætlingsins bærilegra.“

Drifkrafturinn felst í bættu lífi Misfætlinga

Ólöf hefur í mörg horn að líta enda er lífið ekki aðeins niðurnjörvað við að einfalda líf Misfætlingsins, eins og hún orðar það. Hún er menntaður leikari og leiklistarkennari og starfar í Konukoti, sem er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur, í hönnunarverslun og sem gestgjafi í Bjórskóla Ölgerðarinnar auk annarra tilfallandi verkefna. „Drifkraftur nýju viðskiptaáætlunarinnar felst í því að gera líf fólks með misstórar fætur einfaldara og betra með aðgengi að upplýsingaveitu og skóframleiðendum. Að fenginni reynslu veit ég að þetta skiptir mjög miklu  máli,“ segir Ólöf að lokum.

Biðja má um aðgang að Félagi misfætlinga hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu