Hátíðni myndavélar og heilalínurit

Við kynnum til sögunnar Garðar Þorvarðsson, framkvæmdastjóra og frumkvöðul nr. 23 í jóladagatalinu 2013.

Kvikna ehf er hátækni hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðargerð þar sem krafist er mikillar tækni- og raunþekkingar.  Þannig hefur fyrirtækið á síðustu árum verið að þróa bæði eigin lausnir og lausnir sem fyrirtæki hafa sérstaklega beðið um með ákveðin verkefni í huga. Starfsmenn fyrirtækisins hafa mikla sérþekkingu og reynslu á sviði merkjafræði, tölulegrar greiningar, myndvinnslu og mynsturgreiningu svo eitthvað sé nefnt.  Í dag vinnur fyrirtækið að því að þróa lausnir fyrir olíuiðnaðinn, heilbrigðisþjónustuna og lyfjageirann og hefur frá upphafi stefnt á sókn á erlenda markaði. Nær öll verkefni og tekjur fyrirtækisins koma erlendis frá.  Ný lausn frá fyrirtækinu, heilalínurit fyrir taugalækna, var sett á markað í Bandaríkjunum snemma í haust.

Garðar Kvikna

Hátíðni myndavélar og heilalínurit

Hugmyndin að Kviknu kviknaði í október 2008 þegar fjórir einstaklingar sáu mikla möguleika þegar margir sáu fram á langvarandi samdrátt og efnahagsvandamál.  Þeir ákváðu að stofna fyrirtæki án þess að vera með ákveðna viðskiptahugmynd í huga en vissu þó hvaða sérkenni þeir vildu að fyrirtækið hefði og hvar það ætti að vera staðsett á markaðinum. Fyrirtækið vinnur að hátæknilausnum, meðal slíkra verkefna eru olíuverkefni sem fyrirtækið hefur unnið að. Eitt þeirra gengur út á að fylgjast með olíuflekkjum sem lenda á sjónum, staðsetja þá og fylgjast með hreyfingu þeirra með hjálp radarbylgja. Hitt miðar að því að senda sérsmíðaðar hátíðni myndavélar niður í borholurör olíuborpalla. Geta vélarnar sýnt grafískt ástand rörsins, möguleg vandamál, þykkt og sprungur. Þá hefur fyrirtækið unnið að hugbúnaðarlausnum og tölfræðivinnslu fyrir fyrirtækið 3Z, sem skoðar hegðun fiska eftir lyfjagjöf. Síðustu vikur og mánuðir hafa farið í kynningu og markaðssetningu á EEG  heilalínuritsverkefninu sem hefur verið í vinnslu síðustu 4 árin. Það er sérhæft fyrir taugalækna og þjónustufyrirtæki sem þjónusta taugalækningageirann. Meðal annars hefur það verið notað til að rannsaka flogaveiki, en lausnin hefur verið í notkun hjá bandarískum aðilum í rúmlega eitt og hálft ár.

Nánari upplýsingar um fyrirtækið er að finna hér

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu