Smáforrit ætlað þeim sem glíma við ófrjósemi

Á bak við fyrirtækið IVF Coaching ehf. standa tveir fagaðilar, þær dr. Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur og Berglind Ósk Birgisdóttir hjúkrunarfræðingur. Nýlega gáfu þær út smáforrit fyrir snjallsíma á Google Play Store sem heitir IVF Coaching. Smáforritið er á ensku og er ætlað fólki sem glímir við ófrjósemi og er á leið í glasameðferð til að reyna að eignast barn. Forritið leiðir notandann í gegnum ferlið og byggir á gagnabanka sem er fullur af upplýsingum fyrir fólk í þessum sporum sem oft reynast erfið.

Ófrjósemisapp væntanlegt

Gyða Eyjólfsdóttir, sálfræðingur og Berglind Ósk Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur standa á bak við smáforritið IVF Coaching. Myndina tók Vilhelm/Fréttablaðið

Í IVF Coaching smáforritinu má finna upplýsingar um glasameðferðir, um ástæður ófrjósemi, hvað skal hafa í huga þegar glasameðferðarstöð er valin, upplýsingar og útskýringar á hinum ýmisu frjósemisprófum, upplýsingar um vítamín, steinefni og bætiefni og hvernig þau hafa áhrif á frjósemi ásamt upplýsingum um hvað sé hægt að gera til að auka líkur á að meðferðin heppnist og eru upplýsingarnar byggðar á niðurstöðum tuga rannsókna. Til viðbótar eru í smáforritinu 5 djúpslökunarupptökur sem miða að undirbúningi undir mismunandi fasa glasameðferðarinnar.

Í My Treatment hluta smáforritsins er notandinn beðinn um að skrá inn tegund glasameðferðar sem hann er að fara í og aldur fósturvísis þegar hann er settur upp í legið. Þá býður forritið upp á utanumhald um glasameðferðina þar sem lykildagsetningar í tengslum við meðferðina koma fram á dagatali. Eins er hægt að bæta upplýsingum inn í dagatalið sem og að breyta þeim dagsetningum ef meðferðirnar breytast á einhvern hátt.  Þá fær notandinn svokallaða upplýsingamola (daily tips) á hverjum degi á meðan meðferðinni stendur. Í þessum upplýsingamolum má finna ýmis konar upplýsingar, allt frá fræðslu um hvað framundan er í ferlinu, til þess hvað notandinn getur gert til að bæta líðan sína og hvernig auka megi líkur á þungun úr glasameðferðum. Þegar meðferðinni líkur lætur notandinn smáforritið vita hvort meðferðinni lauk með þungun eða ekki og fær viðeigandi upplýsingar í kjölfarið.

Skjáskot úr smáforriti

Smáforritið er afar notendavænt og einfalt

Smáforritið hefur verið í vinnslu í um 14 mánuði og eins og áður sagði standa tveir fagaðilar á bak við það, dr. Gyða Eyjólfsdóttir sálfræðingur og Berglind Ósk Birgisdóttir hjúkrunarfræðingur. „Við höfum mikla trú á verkefninu okkar enda erum við báðar mjög meðvitaðar um þörf þessa hóps fyrir góðar upplýsingar um allt sem viðkemur ófrjósemi og glasameðferðum. Gyða hittir árlega um 20% af þeim konum og pörum sem fara í glasameðferðir á Art Medica og Berglind hefur lesið sér mikið til um ófrjósemi á undanförnum árum og miðlað af þeim fróðleik sem hún hefur viðað að sér. Þessi þörf fyrir upplýsingar sést meðal annars á því að orðin Infertility og IVF (glasameðferð) eru leituð uppi á leitarvélum Google Chrome um 2.500-2.800 sinnum á sólarhring.“ 

„Við höfum báðar séð hversu mikið það hjálpar fólki að fá góðar upplýsingar um hvað auka megi líkur á þungun og um ýmislegt sem fólk getur gert til að láta sér líða betur í meðferðarferlinu og við viljum mæta þessari þörf. Við byrjuðum síðastliðið haust að skrifa niður hugmyndir og móta hvað við vildum gera. Í desember síðastliðnum var gagnabankinn svo tilbúinn. Við sáum hinsvegar fram á að hafa ekki nægt fjármagn til að koma honum yfir í smáforrit og sóttum því um styrk hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands – Átak til atvinnusköpunar. Við sóttum um í febrúar síðastliðnum og biðum spenntar og héldum áfram að bæta inn í gagnabankann.  Í júní síðastliðnum þegar ljóst var að við myndum fá styrk upp á 500.000 úr Átaki til atvinnusköpunar drifum við okkur að hafa samband við Þorstein Árnason sem er grafískur hönnuður og báðum hann um að hanna útlitið á smáforritinu.  Þá höfðum við samband við Erlu S. Árnadóttur lögfræðing og báðum hana um að skrifa notendaskilmálana og að lokum fengum við ReonTech til að sjá um forritunina.“

„Þó svo að okkar eigið fjárframlag og styrkurinn dygðu ekki fyrir kostnaðinum við smáforritið þá fengum við byr undir báða vængi við styrkveitinguna og höfðum samband við Karolina Fund og fengum að vera með hópfjármögnun á síðunni. Þar safnaðist það sem vantaði upp á.  Við teljum að það að verkefnið hafi verið styrkt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafi hjálpað til við að fleiri vildu styrkja verkefnið.“

„Ef styrkurinn frá Átaki til atvinnusköpunar hefði ekki fengist væri verkefnið líklega enn í startholunum þótt við hefðum haldið áfram að sækja um styrki eða finna annan flöt á fjármögnun. Styrkurinn var því mjög þýðingarmikill fyrir verkefnið og eins erum við þakklátar fyrir það að nefndin hafði trú á verkefninu okkar. Það kom okkur líka á óvart hversu mikinn stuðning við gátum fengið hjá ráðgjafanum okkar hjá Nýsköpunarmiðstöð, henni Selmu Dögg Sigurjónsdóttur sem átti alltaf svör fyrir okkur þegar við leituðum til hennar með spurningar eða þær hindranir sem við mættum.  Það hefur verið ómetanlegt.  Við þökkum Nýsköpunarmiðstöð kærlega fyrir stuðninginn og fyrir að hafa trú á verkefninu okkar.“ 

Smáforritið er núna komið út og má nálgast það hér. 

Hámarka þungunarlíkur ófrjórra með smáforriti

 

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu