29 konur bættust í stóran hóp útskrifaðra Brautargengiskvenna

Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður upp á námskeiðið Brautargengi sem er námskeið fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og hefja eigin rekstur eða fyrir konur sem eru í atvinnurekstri en vilja auka rekstrarþekkingu sína.

Þetta haustið útskrifuðust 19 Brautargengiskonur í Reykjavík og 10 á Akureyri, en útskrift fór fram föstudaginn 12. desember á báðum stöðum og var fagnað af því tilefni. Konurnar hafa síðan í haust unnið að sínum viðskiptahugmyndum og mótað sér og sínum verðandi fyrirtækjum stefnu til framtíðar.  Að venju var um fjölbreyttan hóp kvenna að ræða, með ólíkan bakgrunn og menntun, sem og ólíkar hugmyndir; ferðaþjónusta í ýmsum myndum, sérfræðiþjónusta og ráðgjöf auk framleiðslu á allskonar vörum.

Brautargengi útskrift

Konurnar sem útskrifuðust af Brautargengi í Reykjavík ásamt Þorsteini Inga Sigfússsyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Bjarnheiði Hannesdóttur, verkefnisstjóra Brautargengi og Berglindi Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra. 

Yfir þúsund konur útskrifaðar 

Brautargengi hóf göngu sína í Reykjavík árið 1996 og alls hafa nú 1.088 konur útskrifast. Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem gerð hefur verið á árangri Brautargengis, eru yfir helmingur þátttakenda með fyrirtæki í rekstri að námskeiði loknu og telja flestar að námskeiðið hafi skipt mjög miklu máli varðandi það hvort þær færu af stað með rekstur. Einnig telur mikill meirihluti þeirra að þær séu mun hæfari stjórnendur eftir að hafa lokið náminu. Um og yfir 90% þátttakenda segjast geta mælt með Brautargengisnáminu við vinkonur sínar.

 Útskrift Brautargengi á Akureyri

Útskriftarhópurinn á Akureyri ásamt Selmu Dögg Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra. 

Stuðningur við konur afar mikilvægur

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, útskrifaði konurnar og í ræðu sinni varð henni tíðrætt um mikilvægi námskeiðsins Brautargengi. Nauðsynlegt sé að styðja sérstaklega við konur með ráðum og dáð til að feta sín fyrstu skref í fyrirtækjarekstri. Hlufall kvenna sem meirihlutaeigendur fyrirtækja hefur risið hægt og rólega upp fyrir tuttugu prósentin  síðan Brautargengi hóf göngu sína. Enn er langt frá því að jöfnuður ríki með kynjunum að þessu leyti og því sé Brautargengi svo afar mikilvægt námskeið, sagði Ragnheiður Elín í ræðu sinni.

Viðurkenningar veittar

Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestakynninguna hjá útskriftarhópnum í Reykjavík fékk Harpa Hlín Þórðardóttir með fyrirtækið Iceland outfitters.  Harpa er þegar byrjuð að selja veiðiferðir fyrir næsta ár, bæði í skotveiði og stangveiði, með áherslu á erlendar veiðikonur og fjölskyldur.  Harpa er reynslubolti á þessu sviði, sérstaðan dregin mjög sterkt fram í kynningunni og greinilegt að ástríða býr að baki.

Verðlaunahafar Brautargengi desember 2014

Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestakynninguna fékk Harpa Hlín Þórðardóttir og hvatingarverðlaunin fengu þær Guðrún Lára Pálmadóttir og Lilja Björk Pálsdóttir 

Þær Guðrún Lára Pálmadóttir og Lilja Björk Pálsdóttir sem einnig sátu námskeiðið í Reykjavík fá sérstaka hvatningarviðurkenningu, en þær eru að vinna að metnaðarfullu fræðasetri á Gufuskálum á Snæfellsnesi.  Þær hyggjast bjóða erlendum  háskólanemendum einingabær verkleg námskeið í fornleifafræði og náttúrufræði á Snæfellsnesi.  Verkefnið er einkar vel undir byggt, unnin hefur verið grunnstefnumótun og þegar fengist stuðningur frá Vaxtarsamningi Vesturlands til að þróa hugmyndina áfram. 

Ásta Sighvats Ólafsdóttur fékk viðurkenningu fyrir fyrir bestu fjárfestakynninguna úr hópnum sem útstrifaðist á Akureyri en hún hefur í haust unnið að verkefni sem nefnist Englasteinar og er afmarkaður þáttur af stærra verkefni sem Ásta hefur í huga að sameina í eitt fyrirtæki. 

Á Akureyri var Lene Zachariassen veitt sérstök hvatningarviðurkenning fyrir sitt verkefni en hún hefur í haust unnið að stefnumótun fyrir verkefnið sitt sem heitir LENEY sútun og hrosshár. Lene handsútar skinn á umhverfisvænan hátt í anda það sem Lene nefnir "slow skin" þar sem hægt er að rekja sögu afurðarinnar og handverksins.  

 

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu